Bókmenntahátíð í Reykjavík og Norræna húsið undirrita samstarfssamning

Bókmenntahátíð í Reykjavík og Norræna húsið hafa gert með sér samstarfssamning sem felur í sér að Norræna húsið verður einn af aðalstyrktaraðilum hátíðarinnar. Max Dager forstjóri Norræna hússins og Sigurður G. Valgeirsson formaður stjórnar Bókmenntahátíðar í Reykjavík skrifuðu undir samninginn.

Bókmenntahátíð í Reykjavík og Norræna húsið eiga að baki farsælt samstarf en Norræna húsið er heimahús Bókmenntahátíðar í Reykjavík og hefur verið frá því hátíðin var haldin fyrst árið 1985. Samstarfið byggir á traustum grunni og með nýju samkomulagi er enn styrkari stoðum rennt undir það.

Næst verður Bókmenntahátíð í Reykjavík haldin í september 2013 og verður sú hátíð hin ellefta í röðinni. Hátíðin nýtur mikillar virðingar og þykir ein mikilvægasta bókmenntahátíðin í Norður-Evrópu. Þá er hún afar vinsæl meðal erlendra rithöfunda og útgefenda, en erlendum útgefendum er jafnan boðið á hátíðina til þess að kynna fyrir þeim íslenskar bókmenntir og styrkja tengsl þeirra við íslenska höfunda.

Á meðal gesta á síðustu hátíð, sem haldin var í september 2011, voru Nóbelsskáldið Herta Müller frá Þýskalandi og egypska baráttukonan Nawal El Sadaawi.

Meðfylgjandi mynd frá undirritun samningssins í Norræna húsinu. Frá vinstri Einar Kárason, Sjón, Stella Soffía Jóhannesdóttir, Max Dager, Sigurður G. Valgeirsson, Halldór Guðmundsson, Örnólfur Thorsson, Þorgerður Agla Magnúsdóttir og Pétur Már Ólafsson.

Auglýsingar

Þökk

Þá er tíundu Alþjóðlegu Bókmenntahátíð í Reykjavík lokið. Bekkurinn var þéttsetinn í Iðnó á sunnudagskvöldið þegar síðasta upplestrarkvöldið fór fram. Sex höfundar stigu á stokk og síðastur kom Eiríkur Örn Norðdahl sem flutti kröftug hljóðljóð. Hér er eldri upptaka þar sem má sjá og heyra síðasta ljóðið sem hann flutti ,,Úr órum Tobba“:

http://www.youtube.com/watch?v=9kNyd2um4UE&feature=related

Við þökkum öllum erlendu höfundunum sem lásu upp í Iðnó og jusu úr viskubrunni sínum í Norræna húsinu. Þökkum íslensku höfundunum sem lásu upp og þýðendunum sem brúuðu bilið milli menningarheima. Síðast en ekki síst þökkum við öllum sem tóku þátt með því að leggja leið sína á upplestrana í Iðnó, á bókaballið og höfundaviðtölin í Norræna húsinu.

Sjáumst aftur að hausti 2013!

Því miður mun Steve Sem-Sandberg ekki heimsækja Bókmenntahátíð í Reykjavík vegna veikinda.

Opnir fyrirlestrar í dag

Í dag verða tveir opnir fyrirlestrar hjá höfundum Bókmenntahátíðar.

Sá fyrsti verður kl. 14:30 í Norræna húsinu. Nawal El Saadawi mun flytja erindi á vegum Rannsóknarstofu í kynja- og kvennafræðum við Háskóla Íslands. Erindið fer fram á ensku og ber heitið ,,Creativity, Dissidence and Women“. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.

 

Alberto Blanco mun flytja fyrirlestur kl. 16:00 í Lögbergi 101 (athugið breytta staðsetningu) um mexíkóska listasögu. Fyrirlesturinn nefnist ,,Twenty Chapters of Mexican Art in the 20th Century“ og fer fram á ensku. Fyrirlesturinn er á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands. Allir velkomnir.

Söguleg örlög

Bókin Frönsk svíta eftir Irène Némirovsky kemur út um þessar mundir hjá Forlaginu í þýðingu Friðriks Rafnssonar. Fyrir seinni heimsstyrjöldina var Némirovsky vinsæll höfundur í Frakklandi. Dóttir Némirovsky, Denise Epstein, er gestur Bókmenntahátíðar í ár en hún kynnir verk móður sinnar. Epstein var ung að árum þegar móðir hennar lést í útrýmingarbúðum nasista en hún náði að taka með sér á flótta tösku móður sinnar sem geymdi óútgefin handrit.

Denise Epstein mun opna ljósmyndasýningu um ævi og ritverk móður sinnar nk. miðvikudag, þann 7. september kl. 17, í Borgarbókasafninu í Reykjavík. Sýningin ber yfirskriftina „Ég skrifa á brennheitu hrauni…“ en hún er skipulögð á vegum Alliance française í Reykjavík og er liður í hátíðarhöldum vegna aldarafmælis félagsins á árinu.  Hún er sett upp í samstarfi við Borgarbókasafn Reykjavíkur og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og stendur til 30. september, aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Hér má sjá áhrifamikið myndband með viðtali við Denise Epstein þar sem fjallað er um örlög Irène Némirovsky og fjölskyldu hennar: http://vimeo.com/5807829

Denise Epstein mun lesa upp í Iðnó föstudagskvöldið 9. september og ræða við Friðrik Rafnsson í Norræna húsinu laugardaginn 10. september.

Bókaball með Geirfuglum

Sú nýbreytni verður á Bókmenntahátíð í Reykjavík í ár að efnt verður til Bókaballs í Iðnó laugardagskvöldið 10. september. Húsið opnar kl. 22 og mun hljómsveitin Geirfuglar spila frá kl. 23.

Það er kjörið að skella sér í Bókmenntagöngu um Reykjavík fyrr um kvöldið sem leggur af stað frá Grófarhúsi kl. 20 og enda á Bókaballi í Iðnó með höfundum Bókmenntahátíðar.

Iðnó býður auk þess upp á þriggja rétta kvöldverðarseðil á sérstöku tilboðsverði og nálgast má upplýsingar um hann í Iðnó og í síma 562 9700.

Miðasala á Bókaballið fer fram á upplestrarkvöldunum í Iðnó og kostar miðinn 1500 krónur. Það gefst vart betra tækifæri til að bjóða uppáhaldshöfundinum í dans!

Sæluforskot

Glæsilegur bæklingur Bókmenntahátíðar er tilbúinn og hægt að nálgast hann hér. Herlegheitin koma úr prentun næsta mánudag. Áhugasamir geta tekið forskot á sæluna með því að smella á bláu stafina.

Bæklingur_Innsidur