Erlendir höfundar

Ingo Schulze (1962) er einhver þekktasti núlifandi rithöfundur Þýskalands. Skáldsaga hans Simple Storys (Bara sögur), sem kom út árið 1995 í Þýskalandi, varð að metsölubók um allan heim. Sama ár útnefndi tímaritið The New Yorker hann sem einn af sex bestu ungu skáldsagnahöfundum Evrópu. Schulze hefur í skáldverkum sínum einkum tekist á við breytta heimsmynd við hrun Berlínarmúrsins og eftirskjálfta þess í sameinuðu Þýskalandi. Hann hefur unnið til fjölda verðlauna og verið þýddur yfir á þriðja tug tungumála, þar á meðal íslensku en þýðing bókarinnar Simple Storys kom út árið 2000. Í haust kemur út hjá Forlaginu bókin Adam und Evelyn í íslenskri þýðingu. Schulze var áður gestur Bókmenntahátíðar árið 2000.

Matt Haig (1975) er breskur metsöluhöfundur og blaðamaður sem vakti mikla eftirtekt við útgáfu fyrstu skáldsögu sinnar The Last Family in England, þar sem leikverkið Hinrik fjórði eftir Shakespeare er fært til nútímans og sagt frá sjónarhorni hunda. Haig hefur með sérviskulegri, hnyttinni og yfirleitt myrkri sýn sinni á nútímafjölskyldulíf ekki bara lokkað til sín fjölda ákafra lesenda heldur einnig kvikmyndagerðarmenn. Hann hefur auk skáldverka fyrir fullorðna gefið út tvær barnabækur. Nýjasta skáldsaga hans The Radleys fjallar um breskar úthverfavampírur í baslsömu blóðbindindi og er hún væntanleg í íslenskri þýðingu í haust hjá Bjarti.

Pia Tafdrup (1952) er rithöfundur og skáld. Hún er fædd í Kaupmannahöfn en ólst upp á Norður Sjálandi. Árið 1999 hlaut hún Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir ljóðabók sína Dronningporten (Drottningahliðið). Ein þekktasta ljóðabók hennar er Krystalskoven, sem kom út árið 1992, en auk ljóðabóka hafa frá henni komið skáldsögur og leikrit.Verk hennar hafa verið þýdd yfir á meira en 25 tungumál og hún hefur hlotið ýmsar viðurkenningar, þar á meðal norrænu verðlaun Sænsku akademíunnar og bókmenntaverðlaun Weekendavisen.

Paolo Giordano (1982) er ítalskur rithöfundur og doktor í kennilegri eðlisfræði. Fyrsta skáldverk hans Einmana prímtölur, saga um tvær einmana og þjakaðar sálir  sem ná saman, varð að metsölubók um allan heim og kom út í íslenskri þýðingu hjá Bjarti árið 2010. Fyrir bókina fékk Giordano hin virtu Premio Strega verðlaun og varð með því yngsti rithöfundurinn í sögu verðlaunanna til að hreppa þau. Bókin var kvikmynduð árið 2010 og hlaut góðar móttökur gagnrýnenda.

Sara Stridsberg (1972) er sænskur rithöfundur, leikskáld og þýðandi. Hún vann til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2007 fyrir bókina Drömfakulteten. Verkið er skálduð frásögn um Valerie Solanas, sem er þekktust fyrir að vera höfundur SCUM-yfirlýsingarinnar alræmdu og að hafa reynt að ráða listamanninn Andy Warhol af dögum. Stridsberg hefur einnig skrifað leikrit um Solanas og þýddi SCUM-yfirlýsinguna yfir á sænsku. Í rökstuðningi dómnefndar Norðurlandaráðs sagði að verkið sé „átakanlegt uppgjör við ólíkar kúgunaraðferðir í samfélaginu. Þrátt fyrir alvarlegt viðfangsefni er Draumadeildin einstaklega kraftmikil skáldsaga með leikandi tungutaki.“ Síðasta skáldsaga hennar ber heitið Darling River og kom út árið 2010.

Kristof Magnusson (1976) er þýsk-íslenskur rithöfundur, leikskáld og þýðandi.  Kristof vakti fyrst athygli fyrir leikverk sitt Männerhort, gamanleik sem frumsýndur var árið 2003 í Borgarleikhúsinu í Bonn og gekk fyrir fullu húsi í næstum þrjú ár. Skáldsaga hans frá árinu 2010, Das war ich nicht, íronísk frásögn af ástarþríhyrningi í miðri alþjóðlegri fjármálakrísu, var tilnefnd til þýsku bókmenntaverðlaunanna og er væntanleg í íslenskri þýðingu hjá Forlaginu á næsta ári. Kristof hefur auk leikrita- og skáldsagnaskrifa verið mikilvirkur þýðandi og þýtt fjölda íslenskra bóka yfir á þýsku, m.a. Grettissögu, verk Einars Kárasonar og Steinars Braga.

Steve Sem-Sandberg (1958) er sænskur rithöfundur, gagnrýnandi og þýðandi. Hann er talinn einn af eftirtektarverðari rithöfundum sem skotið hafa upp kollinum í Skandinavíu síðasta áratuginn. Bækur hans Theres, Allt förgängligt är bara en bild og Ravensbrück, sem saman mynda lauslega tengdan þríleik um þrjár konur sem settu mark sitt á 20. öldina með ólíkum hætti, uppskáru mikið lof gagnrýnenda. Síðasta skáldsaga hans, De fattiga i Lodz er áhrifamikil frásögn um gettó gyðinga í Póllandi í seinni heimsstyrjöldinni. Hún var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2010 og er væntanleg í íslenskri þýðingu hjá Uppheimum.

Horacio Castellanos Moya (1957) er salvadorskur smásagna- og skáldsagnahöfundur og víða talinn einn mikilvægasti rithöfundur Mið-Ameríku um þessar mundir. Á meðan borgarastyrjöld ríkti í El Salvador, árin 1979-1992, flúði hann land sitt tvisvar; fyrst til Kanada og svo til Mexíkóborgar, þar sem hann starfaði sem blaðamaður um skeið áður en hann varð þekktur sem rithöfundur.

Moya er höfundur níu skáldsagna og fimm smásagnasafna og hefur verið þýddur yfir á fjölda tungumála. Þekktasta skáldverk hans, El Asco (ógleði), sem kom út árið 1997, varð til þess að hann var gerður útlægur frá El Salvador. Hann býr í dag í Pittsburgh Bandaríkjunum á vegum City Asylum verkefnisins sem hefur það að leiðarljósi að veita rithöfundum sem hrakist hafa frá heimalöndum sínum vegna pólitískra ofsókna skjól.

Nawal El Saadawi (1931) er egypsk skáldkona, höfundur yfir 50 skáldverka, og einn af nafntoguðustu mannréttindafrömuðum Egyptalands. Verk hennar takast á við hlutskipti kvenna í heimalandi hennar sem og heiminum öllum, þar sem hún veigrar sér ekki frá því að fjalla um eldfim efni á borð við vændi, heimilisofbeldi og öfgar í trúmálum. Í Egyptalandi hefur hún sætt ofsóknum vegna ögrandi skrifa sinna. Hún var fangelsuð fyrir mótmæli árið 1981 og flúði landið árið 1988 vegna morðhótana öfgamanna. Saadawi var áberandi í mótmælunum Tahir torgi fyrr á þessu ári, þar sem stjórnarskipta var krafist í Egyptalandi.

Herta Müller (1953) er þýskumælandi rithöfundur frá Rúmeníu. Hún hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2009. Hún hefur með „einbeitingu ljóðlistarinnar og hreinskilni prósans að vopni  dregið upp mynd af landslagi hinna landlausu,“ eins og nefndin orðaði það. Hún sætti ritskoðun og pólitískum ofsóknum í Rúmeníu og fluttist til Þýskalands árið 1987, þar sem hún býr í dag. Bækur Hertu bera flestar mark þess harðræðis sem ríkti í Rúmeníu í stjórnartíð einræðisherrans Ceau?escu. Skáldsaga hennar Ennislokkar einvaldsins kom út í íslenskri þýðingu árið 1995. Í haust er væntanleg íslensk þýðing nýjustu skáldsögu hennar, Atemschaukel.

Denise Epstein (1929) er dóttir frönsku skáldkonunnar Irène Némirovsky sem lést í útrýmingarbúðum nasista í Auschwitz árið 1942. Némirovsky var þekktur og vinsæll rithöfundur í Frakklandi fyrir seinni heimsstyrjöldina og hafði hún gefið út fjölda skáldsagna áður en hún var tekin höndum af nasistum sökum þess að hún var komin af gyðingum. Dóttir hennar kemur í sameiginlegu boði Bókmenntahátíðar og Alliance Française og kynnir gleymd verk móður sinnar sem komu nýlega í leitirnar. Í haust kemur út hjá Forlaginu bókin Frönsk svíta eftir Némirovsky í íslenskri þýðingu og einnig verður sett upp ljósmyndasýning um ævi Némirovsky í Borgarbókasafninu.

Vikas Swarup (1963) er indverskur rithöfundur, þekktastur fyrir metsölubókina Viltu vinna milljarð sem varð síðar að margverðlaunaðri óskarskvikmynd í höndum breska leikstjórans Danny Boyle. Áður en hann sló óvænt í gegn með þeirri bók hafði hann aðalstarfa sem ríkiserindreki á vegum utanríkisþjónustu Indlands, en hann skrifaði Viltu vinna milljarð yfir tveggja mánaða skeið meðan hann dvaldi í Lundúnum vegna starfs síns. Önnur skáldsaga hans Sex grunaðir kom út í íslenskri þýðingu árið 2009.

Alberto Blanco (1951) er eitt þekktasta núlifandi ljóðskáld Mexíkó. Á yfir fjörutíu ára útgáfuferli hefur hann sent frá sér á fjórða tug ljóðabóka, í heimalandi sínu og utan, og hafa bækur hans verið þýddar yfir á fjölda tungumála. Auk ljóðlistar hefur Blanco lagt stund á greinaskrif og þýðingar. Meðal verka hans má nefna ljóðabækurnar Cromos, sem hann hlaut Carlos Pellicer verðlaunin fyrir árið 1988, og Canto a la sombra de los animales, en fyrir þá bók fékk hann José Fuentes Mares verðlaunin árið 1989. Hann var tilnefndur til H.C. Andersen verðlaunanna árið 2010.

Anna Politkovskaja (1958-2006) var rússneskur blaðamaður og rithöfundur, þekkt fyrir gagnrýni sína á rússnesk stjórnvöld og mannréttindabrot í stríðshrjáðri Tsjetsjeníu. Hún var skotin til bana 7. október 2006 í lyftu fjölbýlishúss sem hún bjó í. Greinar hennar um átökin í Tsjetsjeníu voru gefnar út í bókum og hlaut hún fjölda viðurkenninga fyrir störf sín. Árið 2004 gaf hún út bókina Rússland Pútíns og kom hún út í íslenskri þýðingu árið 2009. Anna Politkovskaja verður fjarverandi gestur Bókmenntahátíðar Reykjavíkur 2011. Rithöfundurinn Sjón og Katharina Narbutovic, stjórnandi listamannaskipta DAAD í Berlín, munu ræða um framlag hennar til mannréttindamála á bókmenntahátíðinni í ár.

Auglýsingar

Segðu þitt álit

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s