Íslenskir höfundar

Kristín Svava Tómasdóttir er fædd árið 1985. Hún hefur birt ljóð í ýmsum tímaritum og tekið þátt í ljóðaupplestrum frá árinu 2002. Hún hefur tekið þátt í öllum fjórum alþjóðlegu ljóðahátíðum Nýhils og þriðju alþjóðlegu ljóðahátíð menningarsetursins Literaturhaus í Kaupmannahöfn. Kristín Svava sat í stjórn útgáfufélagsins Nýhils frá 2008. Hún gaf út ljóðabókina Blótgælur hjá Bjarti haustið 2007 og var hún valin besta ljóðabókin af bóksölum það ár. Árið 2011 kom svo út ljóðabókin Skrælingjasýningin.

Ísak Harðarson er fæddur  í Reykjavík árið 1956. Ísak sendi frá sér sína fyrstu bók, ljóðabókina Þriggja orða nafn, árið 1982 og síðan hefur hann gefið út fjölda ljóðabóka, smásagnasafn, skáldsögu og endurminningabók. Ljóð hans komu út í safnritinu Ský fyrir ský árið 2000 og ljóð eftir hann hafa einnig birst í erlendum tímaritum og sýnisbókum. Hann hefur einnig þýtt bækur eftir erlenda höfunda á íslensku.

Bergsveinn Birgisson (f. 1971) er dr. art í norrænum fræðum frá Háskólanum í Björgvin og rithöfundur. Frá honum hafa komið ljóðabækurnar Íslendingurinn (1992) og Innrás lijanna (1997). Skáldsögurnar Landslag er aldrei asnalegt (2003), sem hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, og Handbók um hugarfar kúa – Skáldfræðisaga (2009). Árið 2010 sendi Bergsveinn frá sér skáldsöguna Svar við bréfi Helgu sem tilnefnd var til Íslensku bókmenntaverðlaunanna það ár.

Hallgrímur Helgason er fæddur í Reykjavík árið 1959. Frá árinu 1982 hefur hann starfað sjálfstætt sem myndlistarmaður og rithöfundur. Fyrsta skáldsaga hans, Hella, kom út árið 1990 og síðan hefur hann sent frá sér fleiri skáldsögur og ljóðabók. Skáldsaga hans, 101 Reykjavík, vakti verulega athygli þegar hún kom út árið 1996 og var hún tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1999. Hallgrímur hefur einnig skrifað verk fyrir leikhús, auk fjölda blaðagreina um samfélags- og menningarmál. Bækur Hallgríms hafa komið út í þýðingum í fjölda landa. Sem myndlistarmaður hefur Hallgrímur haldið yfir 20 einkasýningar hér heima, í Boston, New York, París og Malmö og verk hans hafa verið sýnd á yfir 30 samsýningum í ýmsum löndum.

Eiríkur Örn Norðdahl er fæddur í Reykjavík árið 1978. Fyrsta bók Eiríks er ljóðabókin Heilagt stríð – runnið undan rifjum drykkjumanna, sem hann gaf út sjálfur árið 2001. Síðan hefur hann sent frá sér fleiri ljóðabækur, bæði á íslensku og ensku, og þrjár skáldsögur. Eiríkur er einn af stofnmeðlimum Nýhil. Hann er ötull þýðandi og hefur bæði þýtt skáldverk erlendra höfunda á íslensku og verk af öðrum toga, t.d. úrval af ljóðum eftir Allen Ginsberg (Maíkonungurinn, Mál og menning, 2008). Hann hlaut viðurkenningu Ljóðstafs Jóns úr Vör árið 2007 og Íslensku þýðingarverðlaunin fyrir þýðingu sína á Móðurlaus Brooklyn eftir Jonathan Lethem 2008. Önnur skáldsaga hans Eitur fyrir byrjendur kom út í þýskri þýðingu árið 2010 og er sænsk þýðing væntanleg. Ljóð hans og ritgerðir hafa verið þýdd yfir á ellefu tungumál.

Oddný Eir Ævarsdóttir er fædd 1972 í Reykjavík. Oddný Eir hefur starfað á vettvangi skáldskapar og myndlistar um nokkura ára skeið, gaf út sjálfsævisögulegu skáldsögu Opnun Kryppunnar (2004), hefur þýtt og ritstýrt bókverkum og unnið að myndlistaratburðum og rak m.a. myndlistarrými í New York og Reykjavík (Dandruff Space) ásamt Ugga Ævarssyni, fornleifafræðingi. Saman reka þau útgáfufélagið Apaflösu og unnu m.a. bókverk fyrir Vatnasafnið í Stykkishólmi. Síðasta skáldsaga hennar kom út árið 2009 og bar hún titilinn Heim til míns hjarta.

Ragna Sigurðardóttir er fædd í Reykjavík árið 1962. Ragna gaf út kverið Stefnumót árið 1987. Tveimur árum síðar kom út önnur bók, Fallegri en flugeldar og aftur liðu tvö ár fram að þriðju bók hennar, 27 herbergi. Í tveimur þessara þriggja bóka eru einnig myndverk eftir höfund. Árið 1993 kom út skáldsagan Borg og vakti hún talsverða athygli. Hún var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna sama ár. Síðan hefur Ragna sent frá sér þrjár skáldsögur. Síðasta skáldsaga hennar Hið fullkomna landslag kom út árið 2009. Hún hefur einnig ritað greinar í blöð og tímarit og fæst þar að auki við myndlistargagnrýni fyrir Morgunblaðið.

Kristín Marja Baldursdóttir er fædd árið 1949 í Hafnarfirði. Fyrsta skáldsaga hennar, Mávahlátur, kom út 1995. Eftir henni hefur verið unnin leikgerð sem sett var upp hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1998. Samnefnd kvikmynd Ágústar Guðmundssonar byggð á sögu Kristínar var frumsýnd í Reykjavík haustið 2001 og hlaut fjölda verðlauna á Eddu-hátíðinni sama ár (Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin). Sögulegar skáldsögur hennar Karítas án titils og Óreiða á striga, hafa notið mikilla vinsælda hér á landi og hafa þær, líkt og aðrar bækur hennar, komið út í þýðingum víða í Evrópu. Karítas án titils var einnig tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Síðasta bók hennar, Karlsvagninn, kom út árið 2009.

Pétur Gunnarsson fæddist  1947 í Reykjavík. Fyrsta ljóðabók Péturs, Splunkunýr dagur, kom út 1973. Skáldsagan Punktur, punktur, komma, strik leit svo dagsins ljós 1976. Bókin var sú fyrsta af fjórum um söguhetjuna Andra en síðasta Andrabókin, Sagan öll, var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1987. Eftir Pétur liggja fleiri skáldsögur og hafa tvær þeirra verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Hversdagshöllin árið 1990 og Myndin af heiminum árið 2000. Pétur hefur einnig fengist við þýðingar og hlaut þýðing hans á Frú Bovary eftir Gustave Flaubert Menningarverðlaun DV 1996. Hann hefur einnig þýtt hluta af verki Prousts, Í leit að glötuðum tíma.

Bjarni Bjarnason fæddist í Reykjavík árið 1965. Í upphafi ársins 1989 kom út fyrsta bók Bjarna, ljóðabókin Upphafið, og síðar sama ár birtist á prenti bókin Ótal kraftaverk sem inniheldur prósaljóð. Síðan hefur hann sent frá sér fleiri ljóðabækur, smásögur og skáldsögur. Önnur skáldsaga Bjarna, Endurkoma Maríu, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 1996 og tveimur árum síðar hlaut hann Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir skáldsöguna Borgin bak við orðin. Hann hefur hlotið verðlaun í smásagnakeppni Ríkisútvarpsins og skáldsaga hans, Mannætukonan og maður hennar vann til Bókmenntaverðlauna Halldórs Laxness árið 2001. Síðasta skáldsaga hans, Leitin að Audrey Hepburn, kom út árið 2009.

Auglýsingar

Ein hugrenning um “Íslenskir höfundar

  1. Nýjasta bók Ísaks ljóðabókin Rennur upp um nótt var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2010.

Segðu þitt álit

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s