Sjósetning framundan

Nú styttist óðum í að Bókmenntahátíð í Reykjavík ýti úr vör glæsilegri dagskrá. Eftir helgina er væntanleg úr prentun heildardagskrá hátíðarinnar og hér er skjal með dagskránni í heild sem er hægt að opna, prenta út og skoða vel og vandlega.

Bæklingur_Program

Auglýsingar

Gælur og skrælur

Kristín Svava Tómasdóttir hefur sent frá sér tvær ljóðabækur. Fyrsta bók hennar Blótgælur kom út árið 2007 og vöktu þróttmikil ljóð bókarinnar verðskuldaða athygli. Nýjasta bókin Skrælingjasýningin kom út hjá Bjarti fyrr á þessu ári.

Hér les Kristín Svava ljóðið Mallorca úr Blótgælum í Kiljunni.

Árið 2008 gaf Tómas R. Einarsson út geisladiskinn Trúnó en þar semur hann lög við tvö af ljóðum dóttur sinnar. Hér má sjá flutning Ragnheiðar Gröndal á laginu Klof vega menn.

Kristín Svava mun lesa upp í Iðnó fimmtudagskvöldið 8. september.

Þar sem þýskan og íslenskan mætast

Kristof Magnusson hefur þýtt fjölda íslenskra bóka yfir á þýsku. Meðal annars hefur hann þýtt Storm eftir Einar Kárason og 10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp eftir Hallgrím Helgason.

Nýjasta skáldsagan, Das was ich nicht, kom út í Þýskalandi árið 2010 og er væntanleg í íslenskri þýðingu hjá Forlaginu að ári. Vinnutitill bókarinnar er Það var ekki ég og Bjarni Jónsson þýðir.

Hér er þýsk heimasíða höfundarins: http://www.kristofmagnusson.de/ Þar má til dæmis sjá myndbönd þar sem höfundur les úr nýjustu bók sinni.

Kristof Magnusson mun lesa upp í Iðnó miðvikudagskvöldið 7. september og ræða við Ólaf Kristjánsson í Norræna húsinu sunnudaginn 11. september.

Ljósmynd af höfundi: Thomas Dashuber

Listin að vera kona

Kristín Marja Baldursdóttir á sér stóran hóp dyggra lesenda hér á landi. Sá hópur stækkar óðum því bækur hennar hafa verið þýddar á að minnsta kosti 5 tungumál. Margar þeirra hafa komið út í Þýskalandi og í ár kom út nýjasta afurðin, Sternen eis, sem er þýðing á nýjustu bók Kristínar, Karlsvagninn.

Kristín Marja hefur að mestu fengist við skáldsagnarskrif en auk þeirra hefur hún gefið út ævisögu Vilborgar Dagbjartsdóttur og árið 2001 kom út smásagnasafnið Kvöldljósin eru kveikt.

Bókin Karítas án titils hlaut árið 2006 tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Bæði Karítas án titils og Óreiða á striga hlutu Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, ásamt tilnefningu til Menningarverðlauna DV í bókmenntum.

Hópur danskra ferðamanna hefur komið til Íslands til að skoða söguslóðir Karítasar, í Öræfum og á Borgarfirði eystri.

Hér má sjá viðtal við Kristínu Marju af vef Sagenhaftes Island: http://www.sagenhaftes-island.is/hofundur-manadarins/nr/1323

Kristín Marja mun lesa upp í Norræna húsinu, laugardaginn 10. september kl. 15:30

Ljósmynd af höfundi: Einar Falur Ingólfsson

Vampírur og blóðþorsti

Matt Haig hefur alls gefið út 6 bækur, þar af tvær barnabækur. Nýjasta barnabókin To be a cat er væntanleg á næsta ári.

Bókin The Radleys kemur út í íslenskri þýðingu í haust hjá Bjarti. Verið er að framleiða bíómynd sem byggir á bókinni. The Radleys fjallar um fjölskyldu sem er eins venjuleg og hugsast getur. Undir yfirborðinu leynist þó blóðþorsti sem foreldrarnir reyna að forða börnum sínum frá.

Þýðandi bókarinnar er Bjarni Jónsson og mun hún heita Radley fjölskyldan á íslensku og koma út um næstu mánaðarmót. Samkvæmt nýjustu fréttum af fésbókarsíðu Bjarts eru prentvélarnar farnar af stað. Þar má einnig finna viðtal við höfundinn.

Hér er lífleg heimasíða höfundarins: http://www.matthaig.com/

Matt Haig mun lesa upp í Iðnó fimmtudagskvöldið 8. september og ræða við Ara Eldjárn í Norræna húsinu laugardaginn 10. september.

Lestími til stefnu

Nú eru 17 dagar þar til Bókmenntahátíð hefst þann 7. september. Það er kjörið að nýta þennan tíma til að kynna sér gesti hátíðarinnar og lesa bækur þeirra.

Eflaust er hægt að nálgast flesta titla í Eymundsson, Iðu, Bóksölu stúdenta og fleiri bókabúðum. Fyrir þá sem kjósa bókasafnið er hægt að leita eftir nafni höfundar eða titli bókar á vefsíðunni www.gegnir.is. Inni á Gegni er hægt að sjá nákvæmlega hvaða bækur eru aðgengilegar og á hvaða safni, einnig er hægt að panta bækur. Á sumum söfnum eru líka bækur höfundanna á frummálinu, fyrir þá sem lesa fleiri tungumál, því ekki hafa allir höfundarnir verið þýddir á íslensku.

Yfirvofandi haust kallar á sófasetu með góða bók í hönd!

Að ganga upp í sjálfan sig – og einn

Paolo Giordano var aðeins 26 ára þegar Einmana prímtölur (La solitudine dei numeri primi) kom út á Ítalíu 2008. Fyrir hana hlaut Paolo ítölsku bókmenntaverðlaunin Premio Strega.Síðan þá hefur bókin farið sigurför um heiminn og verið þýdd á yfir 30 tungumál.

Bókin kom út hjá Bjarti árið 2010 í þýðingu Hjalta Snæs Ægissonar. Í fyrra var frumsýnd kvikmynd á Ítalíu sem byggir á sögunni, hér má sjá sýnishorn úr myndinni.

Einmana prímtölur er eina bókin sem Paolo hefur gefið út og því spennandi að sjá hvað kemur frá honum næst.

Heimasíða höfundarins: http://www.paologiordano.it/en/

Paolo Giordano mun ræða við þýðanda sinn í Norræna húsinu laugardaginn 10. september og lesa upp í Iðnó á lokakvöldinu 11. september.